Ljósmynd: Dirk Skiba

Ljósmynd: Dirk Skiba

Jónas Reynir Gunnarsson fæddist árið 1987 í Reykjavík. Hann ólst upp í Fellabæ, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og lauk grunn- og meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands.

 

Fyrsta bók Jónasar var ljóðabókin Leiðarvísir um þorp sem kom út árið 2017, en það ár komu út þrjár bækur eftir hann. Þá hlaut Jónas Reynir bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Stór olíuskip, sem einnig fékk tilnefningu til Maístjörnunnar og var valin eitt af bestu íslensku skáldverkum ársins af gagnrýnendum Kiljunnar og Víðsjár. Þriðja bókin það ár var skáldsagan Millilending, sem var tilnefnd til Menningarverðlauna DV. Bókaútgáfan Gyldendal gaf Millilendingu út á dönsku, í þýðingu Erik Skyum-Nielsen, í janúar 2020. Næsta skáldsaga Jónasar Reynis var Krossfiskar, sem kom út árið 2018 og var valin ein af skáldsögum ársins í Morgunblaðinu. Ljóðabókin Þvottadagur kom út 2019 og hlaut Maístjörnuna. Haustið 2020 kom út skáldsagan Dauði skógar hjá Forlaginu, en fyrir hana hlaut Jónas Reynir tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins. Skáldsagan Kákasusgerillinn kom út haustið 2022 og var valin ein af skáldsögum ársins í Morgunblaðinu.

Hafa samband: jonasreynir@gmail.com

For foreign rights contact Forlagið